Breaking down the barriers to solving world problems
 

Vandamál sem líklegt er að beita þurfi Simpol nálguninni á

Verndun alþjóðlegra sameigna

Talið er að í auknum mæli þurfi að beita í senn hnattrænni og staðbundinni nálgun í málefnum á borð við hreint loft, hlýnun jarðar, ómenguð höf og nægilegt aðgengi að hreinu vatni. Í mörgum tilvikum er sú tækni sem þarf til að draga úr útblæstri og mengun til staðar en af því notkun hennar felur í sér aukinn kostnað eru þjóðirnar tregar til að innleiða nauðsynlegar reglugerðir af ótta við að atvinnulíf þeirra verði ekki nægilega „samkeppnisfært“ á alþjóðamarkaði. Hvað loftslagsbreytingar snertir, hve oft höfum við t.d. ekki heyrt fréttir á borð við þessar:

 

„Brown gefur eftir varðandi „grænan skatt.“

„GORDON BROWN mun láta undan þrýstingi frá stórfyrirtækjum í dag með því að tilkynna að hætt verði við að leggja „grænan skatt“ á atvinnulífið. Í yfirlýsingu sinni á undan fjárlögum mun fjármálaráðherrann valda umhverfisverndarsinnum vonbrigðum með því að hætta við umhverfisskattinn eftir að hafa ráðfært sig við helstu stórforstjóra Bretlands sem vöruðu við því að skatturinn gæti haft skaðleg áhrif á framleiðni og leitt til fækkunar á störfum.“ (The Independent, 9. nóvember 1999.)

Ef nægilega margar þjóðir sameinast um að innleiða nauðsynlegar reglugerðir samtímis eins og Simpol-stefnan leggur til er hægt að leggja á nauðsynlega skatta eða strangari reglur um útblástur án þess að skerða samkeppnishæfni eða hætta á að stórfyrirtæki flytji starfsemi sína úr landi. Enn fremur gerir Simpol það markmið mögulegt að draga áþreifanlega mjög mikið úr útblæstri í stað þeirrar hóflegu og ófullnægjandi minnkunar sem felst í Kyoto-bókuninni.

Efst á síðu

Alþjóðlegar reglur á fjármálamarkaði

Sífellt fleiri álíta alþjóðlegar reglugerðir um hreyfanlegt fjármagn vera nauðsynlegar fyrir sjálfbært fjármálakerfi. Aðgerðir eins og Tobin-skatturinn og aðrar hömlur á afleiður og aðra fjármálagerninga hafa lengi verið taldar nauðsynlegar til að hafa hemil á spilavítistilhneigingu fjármálaheimsins. Enn fremur er ekki hægt að takast á við vaxandi ógnir hryðjuverkamanna, eiturlyfjasmyglara og glæpasamtaka þegar skattaskjólin halda áfram að leyfa slíku fólki að stunda peningaþvætti og njóta skattaívilnana umfram það sem tíðkast í öðrum ríkjum.

Efst á síðu

Skaðleg skattasamkeppni

Þar sem opið alþjóðlegt fjármálakerfi gerir fyrirtækjum kleift að flytja starfsemi sína á milli landa og vegna þess að stjórnvöldum er almennt umhugað um að laða að fjárfestingu og atvinnu festast þau í eyðileggjandi kapphlaupi um skattaívilnanir til fyrirtækja. Skattlagning á fyrirtæki fer almennt lækkandi um allan heim. Þessu vandamáli er afar vel lýst í grein sem birtist í London Financial Times (2. maí 2003): Langvarandi staða Bretlands sem lágskattasvæðis fyrir fyrirtæki hefur breyst eftir skattalækkanir hjá samkeppnisríkjum innan ESB, samkvæmt könnun sem ráðgjafafyrirtækið KPMG hefur gert:

„Ein af ályktunum KPMG er að samkeppni á milli ríkisstjórna um að laða að fyrirtæki valdi skattalækkunum á fyrirtæki um allan heim og þrýstingi um skattahækkanir á einstaklinga. Eftir því sem fyrirtækin verða sífellt fjölþjóðlegri er orðið auðveldara fyrir þau að flytja starfsemi á milli landa eða gefa upp hagnað sinn í ríkjum þar sem skattarnir eru lægri … „Ég álít að skattar á fyrirtæki séu í varanlegri niðursveiflu,“ sagði John Whiting, skattasérfræðingur hjá PwC. „Á næstu tíu árum þurfa ríkisstjórnir að sætta sig við lægri tekjur frá atvinnulífinu og verða að hækka skatta annars staðar.“ „Þetta er orrusta sem ríkisstjórnir geta aldrei unnið,“ segir hann.“

Rannsókn sem gerð var árið 2002/3 fyrir Citizens for Tax Justice sýnir að skattgreiðslur 275 fyrirtækja á Fortune 500 voru undir 35% markinu og 81% fyrirtækjanna í könnunni greiddi ekkert eða minna en ekkert í tekjuskatt. (Heimild: London Financial Times, 22. nóvember 2004.)

Þessi eyðileggjandi samkeppni hefur nær þurrkað upp skatttekjur af fyrirtækjum og því kemur varla á óvart að stjórnvöld hafi ekki nægar tekjur til að fjármagna almannaþjónustu eins og skóla, sjúkrahús og almenningssamgöngur. Þar sem hver sú þjóð sem dirfðist að hækka skatta á fyrirtæki myndi skerða samkeppnisstöðu sína getur þessi hnattræni vítahringur aðeins verið rofinn með sameiginlegum aðgerðum sem gerðar eru samtímis eins og lýst er í Simpol-stefnunni.

Efst á síðu

Ábyrgð fyrirtækja

Fyrirtæki starfa á hnattrænum markaði. Stórfyrirtæki skrá hlutabréf sín á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Þó að löngun neytenda til að kaupa vörur sem framleiddar eru við góðar umhverfislega og félagslega ábyrgar aðstæður hafi eflaust sín áhrif á fyrirtæki þá hafa þau ekki efni á því að gefa eftir gagnvart keppinautum sínum. Hvert það fyrirtæki sem það gerir hættir á minnkandi hagnað, lægra hlutabréfaverð og þar með á fjandsamlega yfirtöku. Það eru engar ýkjur að segja að á alþjóðlegum samkeppnismarkaði geti fyrirtæki bara hagað sér á þann hátt sem keppinautar leyfa eða eins og fyrirtækin orða það sjálf: „Ef við gerum það ekki þá gera keppinautar okkar það.“

Án viðeigandi alþjóðlegra reglugerða á borð við þær sem Simpol leggur til er þar með óraunsætt að vænta þess að einhverjar varanlegar umbætur verði á viðhorfi fyrirtækja til félagslegrar ábyrgðar eða ábyrgðar gagnvart umhverfinu á meðan fyrirtækjum er frjálst að flytja starfsemi sína yfir til landa þar sem vinnuafl er ódýrara og hömlur varðandi umhverfismál minni og því auknar hagnaðarvonir.

Efst á síðu

Staðfæring og fæðuöryggi

Staðfæring framleiðslu og neyslu, í stað vöruflutninga frá öllum heimshornum, er af sífellt fleirum álitin forsenda fyrir sjálfbæru hagkerfi og sjálfbæru umhverfi á 21. öldinni.

Margar þær stefnur sem nauðsynlegar eru til að ná fram staðfæringu velta hins vegar á alþjóðlegri samvinnu. Sumar stefnur sem þeir sem kalla eftir staðfæringu berjast fyrir, eins og stefnan „Site here to sell here“ (Starfaðu hér ef þú vilt selja hér), þ.e. einhliða setning á reglugerðum sem neyða fyrirtæki sem vilja selja á staðnum að hafa starfsemi sína á staðnum líka, er erfitt að innleiða þegar fjármálamarkaðir eru líklegri til að dæma lönd þar sem slíkt tíðkast sem fjandsamleg atvinnulífinu eða að þau fylgi verndarstefnu og stuðli þar með að fjármagnsflótta, hnignun gjaldmiðilsins o.s.frv. (jafnvel þó að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar útiloki ekki slíkar stefnur). Að hægt sé að koma á staðfæringu er háð því að nýjar reglugerðir séu settar fyrir fjármálamarkaði og fjölþjóðleg fyrirtæki, þ.e. það veltur á stefnum með víðtækan alþjóðlegan stuðning og samvinnu að baki, stefnum eins og Samtímis stefnunni (Simpol).

Enn fremur má stuðla að framleiðslu og neyslu á staðnum með aðgerðum í anda Simpol á borð við hnattræna skatta á eldsneyti. Hærra eldsneytisverð um allan heim með slíkum sköttum myndi gera vöruflutninga yfir langan veg dýrari og það myndi leiða til þess að:

  • Draga myndi úr hlýnun jarðar og annarra mengunarvandamála sem tengjast flutningum.
  • Umferðarteppa yrði minni.
  • Vörur framleiddar á staðnum yrðu ódýrari og þar með samkeppnishæfari og því  myndi staðbundinn efnahagur styrkjast
  • Skatttekjur myndu aukast og því hægt að styðja við fátækari ríki eða bæta upp fyrir olíuframleiðslu eða með öðrum hætti bæta þeim löndum það upp sem verða fyrir tapi af skattinum.
  • Draga myndi úr heilsufarsvandamálum af völdum mengunar og þar með álagi á heilbrigðiskerfið.
  • Draga myndi úr notkun á jarðefnaeldsneyti.

Þessi skattur á eldsneyti er auðvitað dæmi um hvernig alþjóðleg samvinna eins og hún er útfærð í Simpol-stefnunni er forsenda fyrir því að efnahagskerfin verði heilbrigð og dafni vel.

Efst á síðu

Fullnægjandi almannaþjónusta

Frelsi á fjármálamörkuðum, sem hefur gert fjármagnseigendum og fyrirtækjum kleift að forðast skattlagningu og reglugerðir með því að flytja starfsemi sína annað, hefur skapað mikið ójafnvægi í skattbyrði þannig að hún hefur flust frá stórfyrirtækjum yfir á hinn almenna launagreiðanda. Þetta, ásamt tregðu stjórnvalda til að auka skattbyrði af ótta við að missa atkvæði, hefur leitt til alræmdra niðurskurðaraðgerða í almannaþjónustu og velferðarkerfinu, sérstaklega í samgöngum, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Þetta hefur líka valdið því að ríkisstjórnir leitast við að einkavæða almannaþjónustu. Þar sem við lifum í hnattrænu markaðskerfi upplifa næstum því öll ríki þetta fyrirbæri á missterkan hátt þrátt fyrir sífelldar vísbendingar um að einkafyrirtæki séu ófær um að veita á áreiðanlegan og öruggan hátt almannaþjónustu á borð við járnbrautarsamgöngur, orkugjafa, vatnsveitu og aðra lífsnauðsynlega þjónustu.

Hinn almenni samningur um þjónustuviðskipti ­GATS (General Agreement on Trade in Services) treystir þetta ástand enn fremur þar sem stjórnvöld allra ríkja fara að trúa því að aukin samkeppni og skilvirkni leysi þessi vandamál þegar öll gögn sýna hið gagnstæða, að þessir þættir geri ástandið bara verra. Enn fremur líta fjármálamarkaðir á þá þróun að almannaþjónusta komist í hendur einkafyrirtækja sem aðalsmerki hagkerfis sem sniðið er að þörfum viðskiptalífsins. Ríkisstjórnir sem hika við að fylgja slíkum stefnum hætta á að fá yfir sig refsivönd fjármálamarkaðanna.

Aðgerðir til að hækka skatta á fyrirtæki samtímis þvert á landamæri, eins og Simpol kallar eftir, myndu því færa skattbyrðina aftur yfir á herðar stórfyrirtækja og spákaupmanna og því efla á ný almannaþjónustu og færa meira fjármagn til hennar.

Efst á síðu

Minni úrgangur og endurvinnsla

Minnkun úrgangs og endurvinnsla hafa lengi verið lykilþættir fyrir sjálfbærni hagkerfisins og umhverfisins. Hins vegar gera reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þessa minnkun erfiða þar sem þær banna mismunun á milli vara sem eru pakkaðar í endurvinnanlegar umbúðir og þeirra sem eru það ekki. Þetta er dæmigert fyrir Alþjóðaviðskiptastofnunina sem leggur megináherslu á aukin viðskipti en ekki á umhverfismál.

Alþjóðlegar reglugerðir, eins og Simpol setur þær fram, eru nauðsynlegar til að tryggja að málefni umhverfisverndar skipi hæfilegan sess í reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, eða til að setja nýjar reglur fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði og stórfyrirtæki þar sem ríkisvaldinu er gert kleift að setja viðeigandi staðbundnar reglur án ótta við fjármagnsflótta eða önnur slæm viðbrögð markaðarins.

Efst á síðu

Alþjóðleg glæpastarfsemi og hryðjuverk

„Heildarkostnaður árið 2009 af afbrotum sem teygja sig yfir landamæri er sagður jafngilda 3,6 % af vergri þjóðarframleiðslu í heiminum, samkvæmt Juri Fedotow yfirmanni fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna ­UNODC (UN's Drugs and Criminal Prevention agency). Tekjur af mansali eru taldar hafa verið 32 milljarðar dala. „Við þurfum að átta okkur á því að þetta er vandamál sem krefst alþjóðlegrar lausnar,“ sagði hann á glæparáðstefnu SÞ. „Engin þjóð getur leyst þennan vanda upp á eigin spýtur.“ (Der Spiegel, 23. apríl 2012.)

Kemísk efni, varnarefni og hættuleg efnasambönd

Í hnattrænum heimi, þar sem ríkisstjórnir eru sífellt hræddari við að grípa til aðgerða sem gætu aukið kostnað í atvinnulífinu eða komið í veg fyrir fjárfestingar, er næstum ómögulegt að grípa til einhliða aðgerða til að hafa hemil á hættulegum efnasamböndum. Jafnvel Evrópusambandið, sem álitið er vera í fararbroddi hvað varðar félagslega og umhverfislega staðla, er ekki ónæmt fyrir áhrifum hnattvæðingar viðskiptalífsins og getur ekki sett reglugerðir af ótta við afleiðingarnar. Eftirfarandi dæmi sanna þetta:

Hættuleg efni fá blessun ESB fyrir áframhaldandi notkun. Algeng efni, sem grunur leikur á að geti valdið fæðingargöllum, ofnæmi og námserfiðleikum hjá börnum, eru enn framleidd og seld innan Evrópusambandsins undir hvítbók sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út í gær. Umhverfisverndarsinnum er brugðið og þeir segja þetta vera sigur fyrir efnaiðnaðinn sem hefur færst undan því að setja hömlur á vörur án þess að fyrir liggi óyggjandi sannanir fyrir því að þær skaði heilsu manna. Framkvæmdastjórnin segir í yfirlýsingu að hvítbókin sé skref fram á við til að vernda almannaheilsu fyrir 30.000 efnum sem sleppt er reglubundið án prófana út í umhverfið í formi hversdagslega vara, t.d. plasts og áklæða. Á löngum og hatrömmum fundi í Strassborg var stjórnarsvið umhverfismála hjá framkvæmdastjórninni tilneytt til að láta undan kröfum atvinnulífsins vegna ótta við að glata störfum og skerða samkeppnishæfni ef öll algeng efni sem notuð eru dagsdaglega eru prófuð. Elizabeth Salter-Green hjá WWF sagði: „Stjórnmálamenn eiga eftir að samþykkja þetta [tillögu ráðsins]. Ég vona að þeim blöskri þetta jafnmikið og okkur.“ Michael Warhurst, hjá Friends of the Earth, sagði: „Ráðherrar um alla Evrópu verða að segja ráðinu að fleygja þessu ömurlega skjali og gera þess í stað áætlanir sem setja almannaheilsu ofar hagsmunum efnaiðnaðarins.“ ...þessi iðnaður, sem er sá stærsti í heiminum, er einnig óánægður með hvítbókina en af þveröfugum ástæðum. Um leið og viðurkennt er að þörf sé á víðtækum prófunum hafa talsmenn atvinnurekenda áhyggjur af því að reglur ESB í þessum efnum geti skert samkeppnishæfni gagnvart Bandaríkjunum... Sumir í iðnaðinum hafa þegar varað við því að ef gengið verði of langt í Brussel geti þúsundir starfa verið í hættu.“ (The Guardian. 15. febrúar 2001.)

Ef reglur um slík efni yrðu til út frá alþjóðlegum samningum sem ná til allra í einu, eins og Simpol kveður á um, þá væri ekki lengur um að ræða hættu á glötuðum störfum og skertri samkeppnishæfni því með innleiðingu samtímis hverfa slík vandamál.

Efst á síðu

Erfðabreyttar lífverur og líftækni

Þrátt fyrir mikla almenna andstöðu við erfðabreytt matvæli líta alþjóðleg fyrirtæki svo á að erfðabreytingar skapi mikla hagnaðarmöguleika og aukna markaðshlutdeild. Með erfðabreytingum er meðal annars hægt að erfðabreyta plöntu eða lífveru og eftir það er hægt að sækja um einkaleyfi vegna erfðabreyttu lífverunnar eða plöntunnar. Þetta opnar á upptöku náttúrunnar í gróðaskyni, misnotkun og rányrkju. Ríkisstjórnir á hverjum stað gera sér grein fyrir hættunum en eru tregar til að setja einhliða reglur af ótta við að skerða samkeppnisstöðu líftæknifyrirtækja í landinu, draga úr innlendri fjárfestingu eða brjóta reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Enn og aftur er hér þörf á alþjóðlegri samvinnu í gegnum Simpol – Samtímis stefnu – til að hægt sé að koma á viðeigandi reglum varðandi slíka tækni án þess að nokkur þjóð eða nokkurt fyrirtæki tapi á því.

Hafðu samband og láttu okkur vita ef þú telur að þörf sé á Simpol á öðrum sviðum en hér hafa verið nefnd.

Efst á síðu