Breaking down the barriers to solving world problems
 

Valdið til að skapa betri heim er þegar í okkar höndum!

 

Grein eftir John Bunzl, stofnanda Simpol, um hugsunina og gildin í Simpol

Nú þegar heimurinn glímir við efnahagslegan samdrátt vex örvænting þeirra sem hafa haft áhyggjur af hlýnun jarðar, yfirvofandi orkuskorti og öðrum hnattrænum vandamálum. Það virðist erfitt fyrir venjulega borgara að ná einhverjum tökum á þessum málum og tilraunir okkar til að fá stjórnmálamenn til að gera eitthvað í málunum virðast gagnslausar.

Við – að minnsta kosti þau okkar sem búa í lýðræðisríkjum – höfum nú þegar það vald sem þarf til að knýja stjórnmálamenn til að innleiða áþreifanlegar pólitískar lausnir.

 

Til að gera okkur fulla grein fyrir valdi okkar þurfum við fyrst að átta okkur á þeim ranghugmyndum sem aftra okkur frá því að gera okkur það ljóst. Það eru ekki endilega spilltir eða þröngsýnir stjórnmálamenn sem takmarka sýn okkar né heldur gráðug stórfyrirtæki eða fjármálastofnanir. Það eina sem heftir okkur eru ranghugmyndirnar sem við höfum hlaðið upp í hugum okkar og hjörtum.

Fyrst ber þar að nefna þá ályktun okkar að stjórnmálamenn hafi vald til að gera þær mikilvægu breytingar sem gera þarf til að koma heiminum á rétta og sjálfbæra braut. Á því getur ekki leikið nokkur vafi að við álítum að stjórnmálamenn hafi þetta vald því ef við gerðum það ekki myndum við ekki eyða svona miklum tíma í að þrýsta á þá og reyna að fá þá til að breyta stefnu sinni. Við þrýstum á þá og mótmælum vegna þess að við teljum að þeir hafi þetta vald – en þeir hafa það ekki, a.m.k. ekki eins mikið vald og við höldum, og svo sannarlega mun minna vald en þarf til þess að leysa hnattræn vandamál.

Hvernig getur þetta verið? Skortur þeirra á valdi stafar af því að  fjármagn og fyrirtæki flytjast tiltölulega greiðlega á milli landa og ákveða þar með hvaða land fær fjárfestingu og atvinnu og hvaða land missir hana. Þess vegna er frekar órökrétt að þrýsta á stjórnmálamenn á þann hátt sem við gerum. Því hver sú þjóð sem uppfyllir kröfur okkar skerðir samkeppnishæfni sína, veldur því að fjármagn flýr úr landi og atvinnuleysi eykst.

Í stuttu máli: Að ganga að kröfum okkar gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar. Hvers vegna  krefjum við það fólk um grundvallarbreytingar,­ í þessu tilviki stjórnmálamenn, ­sem hefur ekki vald til að framkvæma þær? Augljóslega er eitthvað rangt við þankagang okkar og skilning.

 

Önnur mesta ranghugmynd okkar er sú að ofangreint vandamál hljóti að vera sök þeirra ríku og stórfyrirtækjanna sem flytja til fjármagn sitt. Þó að enginn ætti að láta siðleysi og græðgi stórfyrirtækja óátalin þurfum við að gera okkur grein fyrir því að fyrirtækjasamsteypur gera það sem þær gera vegna þess að annars myndu aðrir styrkja stöðu sína á þeirra kostnað.

Siðleg breytni og það að standast þá freistingu að notfæra sér þægilegra reglugerðar- og skattaumhverfi annarra landa leiðir einfaldlega til þess að fyrirtæki verða undir í samkeppninni við önnur sem ekki eru eins ráðvönd og því er ekki undarlegt að þau hagi sér ekki alltaf eins og við viljum.

Auðvitað ber að gagnrýna ósiðlega hegðun stórfyrirtækja en hvers vegna höldum við áfram að ásaka þau þegar ljóst er að hegðun þeirra er bara eðlileg afleiðing af skorti á jafnréttisgrundvelli þar sem allir eru bundnir af sömu reglugerðum? Enn og aftur: Við hugsum þetta ekki rétt.

 

Það sem meira er, þessar ranghugmyndir leiða okkur til mótsagnakennds hugsunarháttar, eins og það að líta á frjálsa verslun sem óvin. Sem dæmi má nefna að á nýlegri ráðstefnu um sanngjarna viðskiptahætti (Trade Justice) voru fulltrúar á ráðstefnunni óánægðir með niðurstöður könnunar sem gerð var á vegum herferðarinnar Make Poverty History en þar kom í ljós að stuðningsmenn herferðarinnar gátu ekki tilgreint hvað hugtakið sanngjarnir viðskiptahættir táknaði. Í kjölfarið gaf fulltrúi stórra frjálsra félagasamtaka út þetta svar: „Við erum á móti frjálsri verslun og við styðjum verndarstefnu en aðeins við sérstakar kringumstæður.“ En hann kom ekki auga á mótsögnina í þessu. Ef maður er hlynntur verndarstefnu aðeins við sérstakar kringumstæður hlýtur maður að vera fylgjandi frjálsri verslun við allar aðrar kringumstæður. Það sem þessi fulltrúi og margir kollegar hans koma ekki auga á er að óvinurinn er ekki frjáls verslun sem slík heldur sú staðreynd að frjáls verslun á sér stað án fullnægjandi hnattrænna, félagslegra og umhverfislegra reglugerða, án endurdreifingar á auði yfir landamæri og án fullnægjandi styrkingar þvert á landamæri.

Í stuttu máli sagt þá er frjáls verslun ekki óvinur okkar heldur skortur á skilvirkum hnattrænum reglugeðrum og alþjóðlegri stjórnun. Ef leiðtogar hreyfingar okkar geta ekki skilgreint óvininn er þess ekki að vænta að almenningur geti skilgreint viðskiptaréttlæti.

 Ef leiðtogar hreyfingar okkar geta ekki skilgreint óvininn er þess ekki að vænta að almenningur geti skilgreint sanngjarna viðskiptahætti. En djúpt að baki þessum misskilningi liggja ranghugmyndir sem við höfum alið með okkur. Við byggjum þær á misskilningi en höldum í þær dauðahaldi vegna þess að þær gera okkur kleift að ásaka, varpa skömminni á aðra og kvarta og það gerir okkur sjálf réttlát í eigin huga, lætur okkur líða vel, að við séum vígalegir baráttumenn réttlætis sem tala opinskátt fyrir hinu góða í heiminum. En þó að mikilvægt sé að vekja almenning til vitundar um umhverfisskaða, hvernig getur það verið gott fyrir heiminn að ásaka fólk sem ber ekki í rauninni ábyrgðina? 

Hvernig getur það verið rétt að ásaka stjórnmálamenn eða athafnamenn þegar það er í raun ekki á þeirra valdi að koma á breytingum? Hvernig getur það verið rétt að ásaka þessa aðila þegar staðreyndin er sú að ef við værum í þeirra sporum myndu öfl hins alþjóðlega viðskiptalífs krefjast þess að við gerðum nákvæmlega það sama?

Það er kannski út af þessu sem Gandhi sagði: „Það er rétt að veita viðnám og ráðast á kerfi en að veita viðnám eða ráðast á höfund þess er sambærilegt því að veita viðnám og ráðast á sjálfan sig. Því öll höfum við verið máluð með sama burstanum, við erum börn sama skaparans og því er guðlegur máttur hið innra með okkur ótakmarkaður. Að lítilsvirða manneskju er að lítilsvirða þennan guðlega mátt og þar með að skaða ekki bara þá tilteknu manneskju heldur allan heiminn.“[1]

Ef við viljum bæta heiminn þurfum við að átta okkur á því að óvinurinn er markaðskerfi sem er að miklu leyti óregluvætt, að við þurfum að ráðast gegn því en ekki einstökum persónum, fyrirtækjum eða starfsgreinum innan þess. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum öll með einum eða öðrum hætti föst í þessu kerfi, að við erum öll „máluð með sama burstanum“. Af þessu leiðir að á meðan ástandið er ekki neinu okkar að kenna verðum við öll að bera sameiginlega ábyrgð á því að breyta kerfinu innan frá, að gera eitthvað í því. Þegar við hættum að ásaka hvert annað gerum við okkur grein fyrir því að við erum öll fangar sama kerfis og deilum öll sömu plánetunni. Ef við losum okkur við ranghugmyndirnar opnum við hjarta okkar fyrir þeim sannleika að þeir sem við teljum vera sökudólgana eru það ekki, við opnum hjörtu okkar hvert fyrir öðru án mismununar og við opnum hjörtu okkar fyrir heiminum. Því hvernig getum við annars látið gott af okkur leiða fyrir heiminn? Hvernig getum við annars skapað þann fordómalausa vettvang fyrir hnattrænar lausnir sem við þurfum svo sárlega á að halda?

Ekkert af þessu þýðir að við eigum að hætta núverandi baráttu heldur táknar það einungis við eigum að gera okkur grein fyrir takmörkunum hennar og jafnframt gera okkur grein fyrir því að auk hennar er þörf á hnattrænni nálgun sem er fordómalaus, í takt við raunveruleikann og víðtækari.

Nú skulum við kanna betur hvernig slík nálgun lítur út. Hver gætu verið grunnviðmið hennar?
1. Ef frjálst flæði fjármagns og vinnu er hnattrænt fyrirbæri þá hljótum við að draga þá ályktun af því að við þurfum á hnattrænni lausn að halda.
2. Þar sem stjórnvöld grípa ekki til nauðsynlegra aðgerða vegna ótta við að missa störf og fjárfestingar til annarra landa þá þarf lausnin að vera innleidd af öllum þjóðum samtímis, til að losna við þennan ótta.
Ef allar eða nægilega margar þjóðir aðhafast samtímis þá þarf engin þjóð, ekkert fyrirtæki og enginn borgari að tapa á aðgerðinni: Hnattrænt og samtímis – allir vinna.
3. En þar sem ráðandi þjóðir kunna að álíta að hnattræn samvinna þjóni ekki hagsmunum þeirra og geta freistast til að koma sér undan slíku verður lausn okkar að gefa borgurunum vald til að knýja stjórnvöld sín til samvinnu.
 

Okkar lausn er því ekki bara hnattræn og samtímis heldur knúin áfram af borgurunum.

 

4. Ef borgararnir eiga að knýja þetta ferli áfram og þrýsta á stjórnmálamenn sína um að taka þátt í hnattrænni samvinnu verður lausnin að gera þeim kleift að hafa áhrif á stjórnmálamenn á lýðræðislegan, lagalegan og bindandi hátt.
Í stuttu máli þarf okkar lausn einfaldlega að notast við fyrirliggjandi kosningakerfi en gera það á algjörlega nýjan hátt, á þann hátt sem nær yfir landamæri og þvert á stjórnmálaflokka.
Útópía eða raunveruleiki?

Í nokkur ár hefur tiltölulega lítill hópur borgara, aðallega í Bretlandi, prufukeyrt lausn sem uppfyllir öll ofangreind skilyrði. Í þingkosningum árið 2001, 2005 og 2010 tókst þeim að fá 27 þingmenn á breska þinginu og hundruð frambjóðenda frá öllum helstu stjórnmálaflokkunum til að skuldbinda sig til að innleiða stefnupakka samtímis öðrum ríkisstjórnum. Í sumum kjördæmum Bretlands undirrituðu fleiri en einn frambjóðandi skuldbindinguna sem þýðir að stefnan fékk sæti á þinginu óháð því hvort frambjóðandinn ynni. Þetta sannaði að þessi stefna gat fengið brautargengi þvert á flokksmúra og umfang hennar var hnattrænt. Einn þingmaður, Lembik Opik, sagði:

„Við búum saman á einni lítilli plánetu. Sumt ættum við að gera saman, í einu, á þessari sömu litlu plánetu.“

Hvers vegna er þetta svona áhrifaríkt?

En hvernig getur tiltölulega fámennur hópur borgara náð svo miklum árangri á svo stuttum tíma?

Svarið liggur í uppgötvun nýrrar og öflugrar aðferðar til að nota kosningaréttinn.

Aðferðin er sú að gera öllum stjórnmálamönnum ljóst að í framtíðinni munum við kjósa stjórnmálamann eða flokk – innan eðlilegra marka – sem skuldbindur sig til að innleiða stefnuna samtímis öðrum ríkisstjórnum.

Einnig má hvetja uppáhaldsstjórnmálamanninn sinn eða flokkinn sem maður aðhyllist til að skrifa undir skuldbindinguna.

Stuðningsmenn þessarar hreyfingar áskilja sér samt þann rétt að kjósa á þann hátt sem þeir vilja en þeir gera öllum stjórnmálamönnum ljóst að þeir veita forgang þeim frambjóðendum sem hafa undirritað skuldbindinguna og útiloka þá sem ekki hafa gert það. Þannig að stjórnmálamenn sem undirrita skuldbindinguna laða að sér þau atkvæði en hætta engu vegna þess að stefnupakkinn kemst fyrst til framkvæmda ef og þegar nægilega margar ríkisstjórnir um allan heim hafa undirritað hana líka. En stjórnmálamenn sem undirrita ekki skuldbindinguna eiga hins vegar á hættu að tapa atkvæðum til keppinauta sinna og þar með tapa sætum sínum. Þar sem mörg þingsæti og jafnvel úrslit heilla kosninga geta oltið á fremur fáum atkvæðum getur jafnvel lítill hópur stuðningsaðila hreyfingarinnar gert það að stóru hagsmunamáli fyrir stjórnmálamenn að undirrita skuldbindinguna. Í þessu liggur vald borgaranna sem þeir hafa þegar í höndum sínum, jafnvel í voldugum ríkjum eins og Bandaríkjunum, að tryggja að ríkisstjórnirnar undirriti skuldbindinguna og taki þátt í samvinnunni.

Með þessum hætti hafa margir breskir, evrópskir og ástralskir þingmenn undirritað skuldbindinguna. Þessi hreyfing á sér liðsmenn í yfir 70 löndum og þeir skipuleggja sig til að færa verkefnið áfram og breiða það út um heiminn. Árið 2005 hrintu þeir af stað alþjóðlegu starfi þar sem þeir, mögulega með hjálp valinna óháðra sérfræðinga, þróa smám saman þær hnattrænu stefnur sem eiga að vera í heildarstefnupakka hreyfingarinnar. Þetta tryggir að þær stefnur sem innleiða á séu þróaðar lýðræðislega, séu hnattrænar og sérsniðnar að þörfum hvers lands en um leið að ferlið sé áfram opið og sveigjanlegt.

Margar ríkisstofnanir og baráttusamtök hafa þegar upphugsað hnattrænar stefnur sem takast á við loftslagsbreytingar, olíuleka og önnur vandamál en það sem þær skortir eru heildrænar pólitískar aðferðir til að innleiða þær í hnattrænum heimi. Þess vegna sjá þeir þessa baráttu sem leið til að knýja stjórnmálamenn og þjóðir til samvinnu við að innleiða þessar stefnur. Þeim er í síauknum mæli að verða ljóst að ef stjórnmálamenn hafa ekki óskorað vald til að takast á við hnattræn vandamál þá verða borgararnir að taka forystuna í sínar hendur, hanna nauðsynlegar stefnur og nota atkvæðisréttinn til að knýja stjórnmálamenn til að innleiða þær samtímis.

Sem sagt, valdið til að skapa betri heim er þegar í okkar höndum ­við þurfum bara að nota það.

Baráttan sem við erum að tala um er kölluð Samtímis stefna – Simultaneous Policy (eða Simpol, til styttingar). Lembit Opik orðaði það þannig: „Röksemdafærslan sem fólgin er í Samtímis stefnunni er í raun heilbrigð skynsemi ­þetta er barátta sem snýst um að finna út hvar skynsemi fjöldans liggur í rauninni!“

Núna þegar hnattræn vandamál hlaðast upp allt í kringum okkur er kominn tími til að hvert og eitt okkar leggi meira af mörkum. Er ekki kominn tími til að þú látir af ranghugmyndum þínum og opnir hjarta þitt fyrir öllum heiminum? Er ekki kominn tími til að við öll í sameiningu uppgötvum það sem Gandhi orðaði svo: „Guðlegi mátturinn hið innra með okkur er ótakmarkaður“?

Það kostar ekkert að ganga í Simpol-hreyfinguna. Skráðu þig núna.

Með kærri kveðju,

John Bunzl

Stofnandi International Simultaneous Policy Organisation (ISPO)
Desember  2008 (uppfært í apríl 2012).

[1] M.K. Gandhi, An Autobiography, Navajivan Publishing House, Ahmedabad, 1927, 1929.

 

Efst á síðu